Sagan hennar Ídu

Sú gamla mýta að læður eigi að fá að eiga kettlinga einu sinni áður en þær eru teknar úr sambandi lifir enn góðu lífi. Sumum finnst enn sjálfsagt að læður fái að gjóta og flestir búast við því að það sé ekkert mál. Saga Ídu segir okkur annað.

Ída kom í Kisukot 11. apríl sl, þá ca. 10 mánaða. Hún var komin um 6 vikur á leið. Ída hafði aldrei breimað eða sýnt nein merki um að vera orðin kynþroska. Það er nefnilega þannig að sumar læður láta ekki á neinu bera, þó að hitt sé mun algengara. Þrátt fyrir að vera orðin 10 mánaða var hún á stærð við 6 mánaða kettling, mjög lítil og grönn. Hún var þó mjög hress og borðaði vel. Gallinn var þó að hún var oft með niðurgang en það vandamál hafði verið viðloðandi síðan hún var lítil og þrátt fyrir allskonar meðferðir var ekki hægt að laga það almennilega.

Ída stækkaði með hverjum deginum og þann 29. apríl sl. stuttu fyrir kvöldmat byrjaði hún að fá samdrætti. Fæðingin gekk vel og 4 yndislegir kettlingar litu dagsins ljós. 3 högnar og 1 læða. Ída var hress og ánægð með nýja hlutverkið. Þegar farið var að sofa um nóttina voru allir á spena og Ída malandi.

Um morguninn var ekki allt með felldu. Ída var orðin hálf meðvitundarlaus. Það var þotið með hana til dýralæknis. Á leiðinni þangað byrjaði hún að fá flog. 4 tímum seinna var hún dáin. Líklegast var um að ræða alvarlegan kalkskort sem getur gerst hjá öllum dýrum eftir fæðingu. Litlu kettlingarnir hennar voru orðnir móðurlausir og við tók sólarhringsumönnun. Það er ekki auðvelt að koma svona litlum kettlingum á legg en þeir eru hressir og borða vel eins og staðan er núna. Leit að fósturmömmu hefur ekki skilað árangri.

Ída var yndisleg kisa og er hennar sárt saknað. Ég vil með því að segja sögu hennar hvetja fólk til að taka kisurnar sínar úr sambandi. Það er ekki sjálfgefið að allt gangi vel og ég óska engum að ganga í gegnum þann hrylling sem fráfall Ídu var.

ída

Facebook Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *