Sumarið er tíminn

Nú nálgast erfiðasti tíminn í þessum bransa. Endalausar auglýsingar um kettlinga í heimilisleit og endalaust margar læður að gjóta. Svona er þetta alltaf þegar fer að vora. Offramboðið gífurlegt og alltof fáir að fá sér dýr. Nú þegar eru hjá okkur 12 kettir í heimilisleit og 2 á fósturheimilum. Erfiðastir eru þeir kettir sem hafa lent á vergangi eða lent í slæmri lífsreynslu. Þetta eru kettir sem hafa misst traust sitt til mannsins en læra á hverjum degi að treysta aðeins. Það er bara svo erfitt að koma þeim á heimili, því flestir vilja litla krúttlega kúrukettlinga. En ég veit það af eigin reynslu að einmitt þessir kettir verða oft bestu vinirnir. Þeir eru manni þakklátir fyrir að gefa sér annað tækifæri og þeir launa manni það margfalt með gæsku sinni. Það hefur alltaf verið stefna Kisukots að svæfa ekki heilbrigðar kisur sem eiga séns á heimili. Því dvelja þessar elskur oft hér í marga mánuði. Það er ósk mín að einhver vilji hjálpa þeim og veita þeim framtíðarheimili.

Á myndinni er hann Toppur okkar en hann kom í Kisukot 28. febrúar og var lengi vel mjög reiður og sár. Hann hefur tekið framförum og elskar klapp og klór. Hann hvæsir þó reglulega á mann en gerir aldrei neitt. Toppur er lítil viðkvæm sál sem hefur greinilega átt erfiða daga.  Hann var geldur og rakaður í Kisukoti en mun fá fallegan síðan feld þegar hann vex aftur.

IMG_4688

Facebook Comments